Meiri stuðningur er við inngöngu Íslands í ESB, samkvæmt niðurstöðum könnunar MMR sem gerð var 9. – 15. janúar, en samkvæmt síðustu könnun. Samkvæmt niðurstöðunum er þriðjungur hlynntur því að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Aðeins 13,1% þeirra sem styðja ríkisstjórnina eru hlynnt því að Ísland gangi í ESB. Aftur á móti eru 83,1% þeirra sem styðja Samfylkinguna hlynnt því að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Þegar afstaða landsmanna var könnuð til inngöngu í ESB fyrir ári síðan voru 25,0% hlynnt inngöngu. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 50,0% vera andvíg því að Ísland gangi í Evrópusambandið, borið saman við 62,7% í janúar 2013. Þessi mæling bendir því til þess að áhuginn fyrir inngöngu sé að aukast.

Úrtak könnunar MMR er þannig að einstaklingar 18 ára  og eldri voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Álitsgjafar MMR eru valdir úr Þjóðskrá þannig að þeir endurspegli lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar á hverjum tíma. 981 einstaklingur svaraði könnuninni sem var gerð 9.-15. janúar 2014.