Kínversk flugfélög bjóða nú flugfargjöld á gjafaverði til þess að ná aftur upp sætanýtingu eftir að útbreiðsla kórónuveirunnar hefur dregið verulega úr ferðalögum bæði til, frá og innan landsins. Samkvæmt frétt Bloomberg kostar flug með Juneyao Airlines frjá Sjanghæ til borgarinnar Chengdu næstkomandi laugardag einungis um 140 yuan sem samsvarar um 2.500 íslenskum krónum og eru skattar innifaldir í verðinu.

Um er að ræða þriggja og hálfs tíma flug sem er álíka langt og flug frá Keflavíkurflugvelli til Parísar.

Sankvæmt OAG Aviation Worldwide  munu kínversk flugfélög setja tæplega 3 milljónir flugsæta aftur inn í áætlanir sínar í vikunni, aðallega í innanlandsflugi en samkvæmt greinanda hjá fyrirtækinu hafa aðgerðirnar leitt til þess að fargjöld hafa lækkað verulega.

Samkvæmt frétt Bloomberg þar sem vitnað er í vefmiðilinn Sina.com töpuðu kínversk flugfélög um 1,4 milljörðum dollara í febrúarmánuði á sama tíma og tekjur drógust saman um 5,3 milljarða.