Öll fasteignafélögin í Kauphöllinni, Reginn, Reitir og Eik, skiluðu ársfjórðungsuppgjöri sínu fyrir fyrsta ársfjórðung eftir lokun markaða í gær. Reitir hagnaðist um 834 milljónir, Eik um 879 milljónir en Reginn nokkru minna, um 574 milljónir.

Í kynningu Regins segir að tekjur í upphafi árs hafi verið í samræmi við væntingar og að árangur við stýringu á stjórnunar- og rekstrarkostnaði hafi verið góður. Í kynningu Reita segir að uppgjörið hafi einkennst af stöðugleika og að stefnt sé að útgáfu skuldabréfa fyrir 10 milljarða. Eik segir í sinni kynningu að uppgjörið sé litað af háum einskiptiskostnaði vegna skráningar í kauphöll, en að samlegðaráhrif vegna stækkunar á félaginu árið 2014 komi vel í ljós.

Reitir með hæstu leigutekjurnar

Reitir höfðu hæstu leigutekjur fasteignafélaganna á fyrsta ársfjórðungi, 2.112 milljónir króna. Þar á eftir kemur Eik með 1.338 milljónir en Reginn hafði lægstu leigutekjurnar, 1.107 milljónir króna.

Öll félögin eiga það sameiginlegt að leigutekjur lækka nokkuð frá síðasta ársfjórðungi 2014, en í öllum tilfellum eru leigutekjurnar hærri en á sama tíma í fyrra. Talsverðar árstíðasveiflur virðast vera í rekstri fasteignafélaganna.

Svokallað virðisútleiguhlutfall Eikar var 92% á ársfjórðungnum. 96% af eignum Reita voru í útleigu. Hjá Regin var hlutfallið 97%.

Eik með hæsta NOI-hlutfallið

Svokallað NOI-hlutfall (e. net operating income ratio) er mikið notað til að bera saman fasteignafélög, en um er að ræða það hlutfall leigutekna sem eftir stendur þegar búið er að draga frá nauðsynlegan rekstrarkostnað. Því er um að ræða mælikvarða á hagkvæmni í rekstri. Hjá Eik var NOI-hlutfallið 75,6% á síðasta ársfjórðungi. Reginn og Reitir voru á svipuðum stað með NOI-hlutfall í kringum 72%.

Reitir höfðu hæsta eiginfjárhlutfallið í lok síðasta ársfjórðungs, eða um 40%. Hjá Regin var hlutfallið 34%, en 31% hjá Eik.