*

sunnudagur, 12. júlí 2020
Innlent 24. febrúar 2018 15:04

Þrjá daga á leiðínni í vinnuna

Skaginn 3X, Frost og Rafeyri reisa verksmiðju á Shikotaneyju í Kúrileyjaklasanum. Ferðalagið tekur þrjá sólarhringa og sigling með búnað ríflega tvo mánuði.

Gunnar Dofri Ólafsson
Davíð Hafsteinsson og Kristinn Hreinsson
Haraldur Guðjónsson

Skaginn 3X hefur ásamt fyrirtækjunum Frost og Rafeyri gengið frá samningi um að setja upp uppsjávarfiskverksmiðju á Kúrileyjum við austurströnd Rússlands. Það segir reyndar aðeins hálfa söguna, því eyjan Shikotan, þar sem verksmiðjan rís, er nánast í bakgarði Japans, þrátt fyrir að teljast rússneskt landssvæði.

Skaginn 3X er lesendum Viðskiptablaðsins ágætlega kunnugt enda fékk Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar árið 2017. Uppsetning rafmagns í verksmiðjunni fellur í skaut rafvirkja hjá Rafeyri, fyrirtæki sem gerir út frá Akureyri. Rafeyri, sem hefur unnið mikið með Skaganum 3X, var stofnað árið 1994 upp úr sex manna rafvirkjadeild í Slippnum á Akureyri. Nú starfa um 70 hjá fyrirtækinu, að megninu til rafvirkjar.

„Rafeyri hefur í seinni tíð verið hálfgert útrásarfyrirtæki,“ segir Davíð Hafsteinsson, formaður stjórnar Rafeyrar, „með verkefni í Noregi, Færeyjum og víðar, meðal annars í skipasmíðastöðvum í Tyrklandi.“ Útrásin er að mörgu leyti óhjákvæmileg, því höfuðstaður Norðursins og nágrenni skapar að sögn Kristins Hreinssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, ekki nægilega mörg verkefni fyrir jafn fjölmennt fyrirtæki og Rafeyri. „Óskastaðan er alltaf að vinna á heimavelli. Við unnum mikið í Noregi og því fylgir bras,“ segir Kristinn.

72 tíma ferðalag

Fyrirséð er að verkefnið sem bíður starfsmanna Rafeyrar á Kúrileyjum verði enn meiri áskorun. Fyrir það fyrsta tekur ferðalagið frá Íslandi á staðinn þrjá sólarhringa. „Eyjan er um það bil 10 sinnum 25 kílómetrar að stærð. Japanir og Rússar hafa lengi deilt um þessar eyjar en Rússar hertóku þær eftir seinni heimsstyrjöld,“ segir Davíð og bætir við að við eyjarnar séu mjög gjöful fiskimið. Undirbúningur og hönnun verkefnisins er vel á veg komin og útlit fyrir að starfsmenn Rafeyrar fari til Shikotan um miðjan júní. „Það er kannski einkennilegt að fá okkur frá Íslandi til að fara alla þessa leið til að gera þetta,“ segir Davíð.

„Rússarnir fóru um allan heim til að skoða verksmiðjur og eigandi verksmiðjunnar vildi fá okkur og Frost og Skagann 3X til að vinna að verksmiðjunni þannig að hún væri tilbúin til afhendingar,“ segir Davíð. „Það er svolítið þannig að það er kannski ekkert fyrirtæki á Íslandi sem hefur þá reynslu og þekkingu sem við höfum í þessu. Reynslan úr skipunum nýtist okkur vel og hefur kennt okkur að vinna í tímapressu. Þetta er iðnaðarrafmagn sem við höfum getað sett upp á mettíma, eins og til dæmis hjá Eskjunni á Eskifirði, sem er sambærileg verksmiðja og þessi,“ segir Davíð. „Þetta þríeyki, Skaginn 3X, Frost og við höfum líka unnið mjög vel saman,“ segir Kristinn

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Skaginn 3X Rafeyru