Það myndi kosta Landspítalann minnst þrjár milljónir á sólarhring að sinna einstaklingi með hugsanlegt ebólusmit. Ef um staðfest smit væri að ræða hlypi kostnaðurinn hins vegar á tugum milljóna. Þetta segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Í júlí hóf Landspítalinn undirbúning fyrir taka á móti einstaklingum sem kæmu á spítalann vegna gruns um ebólusmit.

Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, segir í samtali við Fréttablaðið að sjúkrahúsið sé ekki að öllu leyti tilbúið til að taka á móti einstaklingi sem væri mögulega sýktur af ebólu. Að sögn Ólafs hefur ebólan nú þegar kostað sjúkrahúsið að lágmarki tíu milljónir króna. Sá kostnaður falli til vegna breytinga á húsnæði og launakostnaði þeirra sem búa sig undir að taka á móti smituðum.