*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 7. mars 2015 14:15

Þrjú félög fara á markað

Fasteignafélögin Reitir og Eik og fjarskiptafélagið Síminn stefna öll á skráningu á Aðalmarkað Kauphallarinnar á næstunni.

Kári Finnsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

Í síðustu viku tilkynntu fasteignafélögin Reitir og Eik áform sín um að skrá félögin á hlutabréfamarkað í apríl en ásamt Símanum eru þau einu félögin sem hafa tilkynnt um skráningu á næstunni. Enn hefur ekkert verið gefið út um nákvæma dagsetningu á skráningu Símans á markað en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu stefnir það að skráningu á þessu ári. Að öllu óbreyttu ættu þá að vera sextán félög skráð á Aðallista Kauphallarinnar þegar þetta ár er liðið. Að sögn Páls Harðarsonar, forstjóra Kauphallarinnar, hafa skráningarnar mikla þýðingu fyrir markaðinn. „Við höfum séð það bara í þessum skráningum sem við höfum fengið nú þegar að þetta gjörbreytir markaðnum,“ segir Páll.

Fimmtíu félög innan tíu ára

Til lengri tíma segir Páll að raunsætt sé að fimmtíu félög geti verið á Aðallista Kauphallarinnar. „Það er stærð sem ég vil gjarnan sjá. Það veltur allt á samsetningu listans og hvaða geirar koma inn en ég held að það sé raunsætt til einhverra ára litið. Næsta áratuginn gætum við verið með fleiri en fimmtíu félög að minnsta kosti ef við lítum á báða markaði. Auðvitað tekur það einhvern tíma en við erum enn ekki með stóran markað í alþjóðlegu samhengi.

Hann er enn að braggast en við eigum enn töluvert inni til að við teljumst þokkalega samanburðarhæf í alþjóðlegum samanburði. Til að ná þeirri stærð þá þyrfti markaðurinn að tvöfaldast að markaðsvirði. Þá erum við komin í markað sem er orðinn 65-70% af landsframleiðslu. Það er í sjálfu sér algengt viðmið. Auðvitað er allur gangur á því og margir markaðir mun stærri en það en ég myndi segja að það væri ekkert óeðlilegt fimm til fjögurra ára markmið að ná því,“ segir Páll.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Kauphöll Páll Harðarson Síminn Skipti Reitir Eik