Fyrir utan Kaffitár sem íhugar að höfða skaðabótamál á hendur ISAVIA vegna tafa við að fá afhent útboðsgögn vegna leigurýmis í Leifsstöð, þá íhuga tvö fyrirtæki málsókn til viðbótar.

Tveggja ára stapp við opinbera aðila

„Þetta er náttúrulega alveg með ólíkindum að við þurfum að standa í svona stappi við opinbera aðila. Og að við þurfum að leggja í allan þennan kostnað og tíma við að fá það sem okkur ber, er náttúrulega bara, á ekki að vera borgurunum samboðið,” sagði Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs í viðtali við Vísi , en barátta fyrirtækisins til að fá gögnin afhent hefur tekið um tvö ár.

Hvort fyrirtækið höfðar skaðabótamál gegn ISAVIA kemur í ljós eftir að búið verður að fara yfir gögnin.

„Ég held að það sé alveg ljóst að ef að við sjáum að það er mjög mikill meinbugur á stigagjöfinni og gögnunum, að þá gerum við það,“ sagði Aðalheiður.

Tvö fyrirtæki íhuga skaðabótamál

Þar sem ISAVIA hét trúnaði um útboðsgögn þeirra fyrirtækja sem tóku þátt í útboðinu án þess að hafa haft heimild til þess líkt og úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur staðfesti nýlega, þá íhuga að minnsta kosti tvö fyrirtæki sem tóku þátt í útboðinu einnig skaðabótamál.