Þrjú embætti eru auglýst laus til umsóknar í Lögbirtingablaðinu í dag. Um er að ræða tvær dómarastöður og eina forstjórastöðu ríkisins.

Í fyrsta lagi er auglýst dómarastaða við Landsrétt en stefnt er að því að skipa í stöðuna frá 1. september 2019. Staðan losnar þegar Vilhjálmur H. Vilhjálmsson sest í helgan stein en hann verður 69 ára í júní.

Í öðru lagi er staða dómara við Héraðsdóm Reykjaness auglýst en þar mun dómstjórinn Gunnar Aðalsteinsson láta af störfum sökum aldurs. Gunnar er reynslumikill dómari en hann hefur sinnt dómarastörfum frá árinu 1987. Um er að ræða embætti dómara við Héraðsdóm Reykjanes en þó mun umræddur dómari sinna störfum við alla héraðsdómstólana eftir ákvörðun dómstólasýslunnar. Stefnt er að því að skipa í embættið frá 13. nóvember 2019.

Að endingu er staða forstjóra Landmælinga Íslands auglýst. Magnús Guðmundsson, sem hefur verið forstjóri Landmælinga frá 1998, lætur af störfum sem forstjóri bráðum. Í fyrra var hann settur sem framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs og verður skipaður sem slíkur þegar árs setningartíminn rennur sitt skeið.

Umsóknunum um dómarastöðurnar ber að skila til dómsmálaráðuneytisins fyrir 20. maí næstkomandi en umsóknir um forstjórastöðuna skulu sendast umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fyrir sama tímamark.