Þeir Stefán Ólafsson, félagsfræðiprófessor og stjórnarformaður Tryggingastofnunar, og Hannes Hólmsteinn Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor, hafa í mörg ár tekist á um ólíka nálgun og hugmyndafræði á stjórnmálin. Þeir hafa tekist á í ræðu og riti og deilt hart hver á annan á þeim vettvangi eða í einstaka fyrirlestrum.

Nú nær deila þeirra einn á samfélagsmiðilinn Facebook, eða öllu heldur í athugasemdakerfi Eyjunnar, þar sem þeir takast á undir Facebook notendanöfnum sínum.

Stefán Ólafsson, sem hefur nú um nokkurt skeið fjallað um stjórnmál á bloggsíðu sinni á vef Eyjunnar, fjallar í dag um samræður sínar við hinn virta fræðimann og nóbelsverðlaunahafa Milton Friedman sem kom hingað til lands árið 1984. Þegar Milton, sem er líklega er einn þekktasti frjálshyggjumaður heims, kom hingað til lands tók hann þátt í sjónvarpsumræðu þar sem þrír íslenskir og vinstri sinnaðir fræðimenn rökræddu við hann um þær hugmyndir sem hann sjálfur hafði boðaða. Stefán, sem þá hafði verið lektor við Háskóla Íslands í þrjú ár, var einn þeirra en hinir voru Birgir Björn Sigurjónsson, hagfræðingur og nú fjármálastjóri Reykjavíkurborgar og Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, nú forseti Íslands en þá stjórnmálafræðiprófessor.

Eitt eftirminnilegasta atvik þáttarins var þegar Stefán Ólafsson gerði undir lok þáttarins athugasemd við það að innheimt hefði verið 1.200 króna aðgangseyri (á verðlagi þess árs) á fyrirlestur Friedman þegar venjan væri sú að fyrirlestrar fræðimanna væru jafnan ókeypis. Friedman var fljótur að svara því til að ekkert væri í raun ókeypis, enda þyrfti einhver að standa straum af kostnaði við ráðstefnuhald.

Hannes Hólmsteinn Gissurason
Hannes Hólmsteinn Gissurason
© BIG (VB MYND/BIG)
Hannes rifjar þetta atvik  upp á bloggsíðu sinni á vef Pressunnar í dag en hann hefur í mörg ár notað þetta dæmi í rökræðu sinni um að ekkert sé í raun ókeypis. Eins og svo oft áður er Stefán fljótur til svara og síðar í dag svaraði hann Hannesi á bloggsíðu á Eyjunni. Í kjölfar hennar skrifar Hannes athugasemd við bloggfærslu Stefáns þar sem spyr hverjir það væri sem ættu að borga fyrir fyrirlestur aðrir en þeir sem hann sækja. Þá spyr Hannes um það hvernig fyrirlestraröð Öndvegissetursins Eddu og Þjóðmálastofnunar, sem Stefán veitir forstöðu, gegn frjálshyggju  haustið 2010 hafi verið fjármögnuð og hvort starfsmenn þeirra stofnana hafi unnið sína vinnu í sjálfboðavinnu.

Stefán svarar Hannesi með orðunum; „Þú ert hálf vanstilltur Hólmsteinn!“ og fylgir því eftir með því að segja að fyrirlestraröðin hafi verið ókeypis af því að enginn hafi þurft að greiða sig inn á hana.

Hér má sjá umrædda færslu.