Gamlir menn
Gamlir menn
Þúsundir Grikkja hafa fengið greiddan lífeyri frá ríkinu löngu eftir andlát þeirra. Í Þjóðskrá Grikklands eru minnst 4.500 fyrrum starfsmenn gríska ríkisins skráðir lifandi en eru í raun látnir. Hafa aðstandendur ekki hirt um að tilkynna andlátið og í hverjum mánuði bárust viðkomandi lífeyrisgreiðslur frá ríkinu. Louka Katseli, ráðherra vinnumála í Grikklandi, segir að ríkissjóður hafi greitt að minnsta kosti 16 milljónir evra á ári til látinna einstaklinga, eða um 2,7 milljarðar króna.

Um fleiri einstaklinga gæti verið að ræða þar sem rannsókn á tölvugögnum vegna lífeyrisgreiðslna úr ríkissjóði leiddi í ljós að sláandi margir Grikkir væru orðnir 100 ára og eldri. Stendur til að kanna hvort allir þeir aðilar séu á lífi.

Þetta er eitt af mörgum dæmum um brotalamir í opinberri stjórnsýslu í Grikklandi, sem angrar ekki síst ráðamenn Evrópusambandsins og aðra þátttakendur í björgunaraðgerðum vegna grísku fjármálakreppunnar af því er fram kemur á vef Landssamtaka lífeyrissjóða.