*

laugardagur, 6. júní 2020
Erlent 12. janúar 2020 16:06

Þversagnir og olíuóvissa í Noregi

Greta Thurnberg hafnaði umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs, meðal annars vegna olíuvinnslu á Johan Sverdrup-svæðinu, sem hófst í vikunni.

Kristján Torfi Einarsson
Norski orkumálaráðherrann, Kjell Bjorge Freiberg, fagnar opnun Johan Sverdrup-svæðisins með því að kökubita.
epa

Norðurlöndin voru í kastljósi heimspressunnar á nýliðnu ári. Greta Thunberg var óvænt áhrifamesti gagnrýnandi á sívaxandi kolefnislosun í heimsbúskapnum en hvöss ádeila sænska unglingsins á sinnuleysi ráðamanna gagnvart loftlagsvánni fór eins og eldur í sinu um heimsbyggðina. Norðmenn gengu líka fram með góðu fordæmi og eru komnir allra þjóða lengst í rafvæðingu bílaflotans. Það varpar þó löngum skugga á þessa jákvæðu ímynd að engin þjóð jók olíuframleiðslu sína meira á síðasta ári en Norðmenn. Það hefur reynst þrautin þyngri að binda umhverfisvernd og olíuframleiðslu í eina trúverðuga framtíðarsýn og fyrir vikið ríkir óvissa um framtíð norskrar olíuvinnslu.

Olíuvinnsla hófst í tilraunaskyni á Johan Sverdrup-svæðinu í október á nýliðnu ári. sama mánuð og Greta átti að veita umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs viðtöku, en sænski unglingurinn og aðgerðarsinninn hafði að mati dómnefndar „blásið auknu lífi í umræðuna um loftlags- og umhverfismál á örlagaríkum tímapunkti í veraldarsögunni“. Þegar afhenda átti verðlaunin í beinni útsetningu við hátíðarlega athöfn í Stokkhólmi var Greta hins vegar víðs fjarri og í stað hennar stigu fulltrúar hennar á sviðið og greindu frá því að hún hefði ákveðið að afþakka verðlaunin. Meðal annars vegna framkvæmda Norðmanna og fyrirhugaðrar olíuvinnslu á svokölluðu Johan Sverdrup-svæði í Norðursjó.

Olíuvinnsla hófst formlega á Johan Sverdrup-svæðinu á þriðjudag á 100 þúsund tonna olíuborpall, sem hefur verið reistur sunnarlega í Norðursjó fyrir ofan eina stærstu olíulind sem fundist hefur í heiminum á þessari öld. Samtals nam kostnaður fyrsta áfanga framkvæmda á svæðinu níu milljörðum Bandaríkjadala, jafngildi ríflega 1.100 milljarða íslenskra króna. Talið er að seinni áfanginn muni kosta tæplega 4,5 milljarða dollara. Fjárfestingin upp á ríflega helming vergrar þjóðarframleiðslu Íslands er hins vegar ekki stór í samanburði við áætlaðar tekjur af olíunni.

Reiknað er með að vinnsla verði starfrækt í 50 ár og á þeim tíma skila norska ríkisrekna olíuvinnslufélaginu Equinor yfir 100 milljörðum Bandaríkjadala í tekjur eða jafngildi ríflega 12 þúsund milljarða íslenskra króna. Talið er að Johan Sverdrupsvæðið geymi um 2,7 milljarða olíufata og er því stærsta olíulind í Vestur Evrópu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér