Erlendir bankar fá frest til 1. júlí á næsta ári til að láta bandarísk stjórnvöld hafa upplýsingar um peningalegar eignir Bandaríkjamanna erlendis. Bandaríkjamenn settu einhliða lög sem skylduðu erlendar fjármálastofnanir að afhenda þessar upplýsingar til að koma upp um þá sem eru að sniðganga bandarísk skattalög.

Lögin voru sett árið 2010 og hafa fjölmörg fyrirtæki skrifað undir samkomulag við skattayfirvöld í Bandaríkjunum um að þau láti gögnin af hendi, sem meðal annars geyma upplýsingar um peningalegar eignir Bandaríkjamanna og félaga í þeirra eigu.

Eftir 1. júli á næsta ári er fjármálastofnunum í Bandaríkjunum skylt sé eftir því leitað að halda aftur 30% af öllum greiðslum, eins og vöxtum og afborgunum, til erlendra banka sem ekki hafa undirritað samkomulagið. Í sumum tilvikum er þessum fyrirtækjum óheimilt að afhenda þessar upplýsingar vegna löggjafar í heimalandi, eins og lög um bankaleynd. Því hafa bandarísk stjórnvöld gert milliríkjasamninga við ríki sem kveða á um að þau safni þessum upplýsingum og afhendi Bandaríkjamönnum.