*

sunnudagur, 16. júní 2019
Innlent 12. júní 2019 10:59

Þyrftu að rifta eigin greiðslum

Nauðsynlegt er fyrir þrotabú Saga Capital að höfða riftunarmál vilji það ekki una 40 milljón króna þóknun til slitastjórnarmanna.

Jóhann Óli Eiðsson
Hæstiréttur vísaði málinu frá héraðsdómi.
Höskuldur Marselíusarson

Nauðsynlegt er fyrir þrotabú Saga Capital að höfða riftunarmál vilji það ekki una 40 milljón króna þóknun til slitastjórnarmanna félagsins. Kröfum F fasteignafélags ehf. vegna þóknunarinnar var vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstarétts í dag. Skiptastjórar þrotabúsins voru áður í slitastjórn félagsins.

Saga Capital, sem áður hér Saga Capital Fjárfestingarbanki, var tekið til slitameðferðar, á grundvelli ákvæða laga um fjármálafyrirtæki, í árslok 2011. Voru lögmennirnir Ástráður Haraldsson og Arnar Sigfússon og endurskoðandinn Sigrún Guðmundsdóttir skipuð í slitastjórnina.

Á fyrsta kröfuhafafundi var upplýst að 2,3 milljarða kröfum hefði verið lýst í búið. Afar ólíklegt væri að félagið gæti staðið við skuldbindingar sínar en það var þó háð vafa um lyktir mála sem slitastjórnin átti eftir að höfða. Var það meðal annars vikið að viðskiptum við íslenska ríkið og Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ). Slitastjórn sagði einnig að hún hygðist taka sér greiðslu smám saman af fé félagsins en áskildi sér einnig rétt til að taka þóknun með tilliti til hagsmuna sem í húfi væru við sölu eigna.

Slitastjórnin höfðaði tvö riftunarmál, annað á hendur ESÍ og voru rúmir 14 milljarðar þar undir. Einnig var höfðað riftunarmál gegn Hildu ehf., en því hefur nú verið slitið og F fasteignafélag tekið við réttindum þess, en það mál tók til rúmlega 1,2 milljarðs.

Slitastjórnin hafði sigur í síðarnefnda málinu. Á kröfuhafafundi í apríl 2016, þar sem enginn kröfuhafa mætti, ákvað slitastjórnin sér hagsmunaþóknun vegna „Hildumálsins“. Fært var í fundargerð að full hagsmunaþóknun myndi nema 53 milljónum króna auk virðisaukaskatts en slitastjórnin ákvað að „takmarka þóknun sína vegna málsins“ við 40 milljónir auk vasks. Fékk Ástráður helming þeirrar upphæðar en hinir slitastjórnarmennirnir skiptu afganginum sín á milli.

ESÍ var sýknað af kröfum slitastjórnarinnar með dómi Hæstaréttar í nóvember 2017 og lagði slitastjórnin inn kröfu um gjaldþrotaskipti í upphafi síðasta árs. Fyrrnefnd Arnar og Sigrún voru skipuð skiptastjórar. Eftir að skipti hófust fengu forsvarsmenn Hildu upplýsingar um fyrrgreinda þóknun og töldu hana með öllu ólögmæta.

Ekki boðað til fundarins með réttum hætti

Hilda, síðar F fasteignafélag, krafðist þess að fá þóknunina ógilta og var fallist á það með úrskurðum í héraði og Landsrétti þar sem ekki hefði verið boðað til kröfuhafafundarins í apríl 2016 með réttum hætti. Slitastjórnin hafði sagt að boðað yrði til þeirra með tölvubréfi auk auglýsingar í Lögbirtingablaðinu en þarna hafði ekkert tölvuskeyti verið sent.

Þetta féllst Hæstiréttur ekki á. Benti dómurinn á að er Saga Capital var tekið til slitameðferðar þá hafi ekki orðið nein breyting á stöðu þess sem persónu að lögum. Aðeins hafi verið sett slitastjórn yfir félagið sem tók við réttindum og skyldum stjórnar og hluthafafundar. Ekkert „slitabú“ hafi orðið til. Staða Saga Capital hafi ekki breyst fyrr en með gjaldþrotaúrskurði á síðasta ári er það varð að þrotabúi.

„[Ákvæði gjaldþrotalaga], leiða [...] ekki til þess, þótt slitameðferð á félagi sem starfrækt hefur fjármálafyrirtæki sé undanfari gjaldþrotaskipta á því, að skiptastjóri eða skiptafundur í þrotabúinu verði fremur en endranær bær um að taka ákvörðun um réttmæti þóknunar, sem fyrrum fyrirsvarsmaður félagsins, eftir atvikum slitastjórnarmaður, hefur látið greiða sér fyrir störf sín í þágu þess áður en til gjaldþrotaskiptanna kom. Úr réttmæti slíkrar aðgerðar verður fráleitt leyst í dómsmáli, sem rekið er eftir ákvæðum 5. þáttar [gjaldþrotalaga],“ segir í dómi Hæstaréttar.

Enga stoð væri að finna fyrir málarekstri F fasteignafélags í máli þessu, hvorki í lögum um fjármálafyrirtæki né gjaldþrotalögum. Til að hnekkja þóknuninni þyrfti þrotabú félagsins að höfða riftunarmál vilji það ekki sætta sig við hana. Málinu var því vísað frá héraðsdómi.

Stikkorð: Saga Capital
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is