Mario Götze tryggði Þjóðverjum sigur í úrslitaleiknum gegn Argentínu í Heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu, með marki á 113. mínútu.  Þetta er fjórði heimsmeistaratitill Þýskalands og sá fyrsti í 24 ár. Þýskaland er fyrsta Evrópuþjóðin til að verða heimsmeistari þegar mótið er haldið í Ameríku.

Leikurinn var taktískur og fátt um færi. Þjóðverjar voru með með töluverða yfirburði úti á vellinum en Argentínumenn fengu svo sannarlega sín færi. Staðan eftir 90 mínútur var markalaus og því var framlengt.

Það voru varamennirnir Andre Schurrle og Mario Götze sem tryggðu Þjóðverjum sigurinn í framlengingu. Schurrle geystist upp vinstri kantinn og gaf fyrir á Götze sem tók meistaralega á móti boltanum með brjóstkassanum við nær stöngina og spyrnti honum viðstöðulaust í fjær hornið. Argentínumenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna en tíminn var of skammur.