Aðeins fjórðungur Þjóðverja telur að Grikkland eigi að halda áfram í myntsamstarfi Evrópu eða fá frekari fjárhagsaðstoð frá evrulöndunum.

Hins vegar vilja 54% Þjóðverja að Grikkland yfirgefi evruna. Þetta kemur fram í könnun Financial Times/Harris sem var gerð í Þýskalandi, Ítalíu, Spáni, Frakklandi og Bretlandi 14-23. ágúst. Úrtakið var rúmlega 1.000 manns í hverju landi.

Þessi afdráttarlausa afstaða sýnir erfiða stöðu Angelu Merkel kanslara Þýskalands heimafyrir. Því er ekki aðeins andstaða við frekari aðstoð við Grikkand meðal samstarfsflokka Merkel, heldur einnig meðal þýsks almennings.

Merkel á erfitt verk framundan að sannfæra samlanda sína um að aðstoða Grikki frekar. Embættismenn telja að allt að 20 milljarða evra vanti upp á þegar samþykkt 174 milljara evra neyðarlán til landsins.

Um 33% Breta vilja að  Grikkland yfirgefi evrusamtarfið, 32% Frakka, 27% Spánverja og 21% Ítala.

Um 74% Þjóðverja efast um að  Grikkir muni nokkurn tímann endurgreiða neyðarlánin frá ESB og AGS. Hins vegar telja 77% Ítala og 57% Spánverja að Grikkjum muni takast að endurgreiða lánin.

Hér er hægt að skoða niðurstöður könnunarinnar.