„Ég held að við séum í þannig aðstæðum að það séu fleiri tilbúnir að ræða málin á þessari forsendu og geri sér ljósa grein fyrir nauðsynlegum breytingum," Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í viðtali við Viðskiptablaðið. Kristján segist vilja aukna þjónustustýringu og sér fyrir sér að heilsugæslulæknar verði fyrsti viðkomustaður áður en haldið sé tlil sérfræðilækna eða annarra. „Bæði er efnahagsástandið og fjármögnun heilbrigðiskerfisins heilbrigðiskerfisins með þeim hætti að það kallar á uppstokkun. Hitt er svo rétt að tíð að ráðherraskipti undanfarinna ára hafa ekki stuðlað að festu, stöðugleika og markvissri stýringu,“ segir Kristján Þór.

Hvað áttu við?

„Í þessum orðum mínum felst enginn dómur yfir fyrri ráðherrum. Þeir hafa komið fram með sín ágætu markmið og ég er ekki sammála þeim öllum. En síðustu ráðherrar hafa ekki haft tækifæri til að vinna að framgangi þeirra eða koma þeim til almennilegra framkvæmda,“ útskýrir Kristján Þór og vísar aftur til ársins 2007. „Guðlaugur Þór var ráðherra í hálft annað ár. Þá kom Ögmundur sem hvarf úr ríkisstjórn eftir nokkra mánuði. Svo kom Álfheiður og loks tók Guðbjartur við. Á fimm árum ertu með fjóra ráðherra yfir heilbrigðismálum og til að gera illt verra var þeim undir lokin hrært saman við félagsmálin,“ bætir hann við.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins má finna ítarlegt viðtal við Kristján Þór Júlíusson. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.