Hlutabréfavelta á aðalmarkaði Kauphallarinnar nam 2,8 milljörðum króna í dag og úrvalsvísitalan hækkaði um 0,11%. Afar litlar breytingnar voru á gangvirði skráðra félaga, en af þeim 20 sem aðalmarkaðinn skipa hækkuðu fimm, tíu lækkuðu, og fimm stóðu óhreyfð. Aðeins þrjú þeirra hreyfðust um yfir 1%.

Mest hækkuðu bréf Brims um 1,30% í aðeins 8 milljóna króna viðskiptum, því næst komu Eimskip með 1,12% hækkun í 91 milljóna viðskiptum, og þriðja sætið vermdu bréf Heimavalla með 0,87% hækkun í 172 milljónum.

Bréf Sýnar féllu mest allra, um 1,05% í 14 milljóna viðskiptum, næst kom VÍS með 0,72% lækkun í tæplega milljón króna viðskiptum, og Hagar og Origo voru jöfn um þriðja sætið með 0,55% lækkun í 48 og 9 milljóna viðskiptum.

Mest var 537 milljóna króna velta með bréf Iceland Seafood, en verðið stóð óhreyft eftir viðskipti dagsins. Bréf Marel hækkuðu um 0,41% í 415 milljóna króna viðskiptum, og Síminn féll um 0,19% í 380 milljónum.