Tinni Kári Jóhannesson hefur verið ráðinn ráðningarstjóri og senior ráðgjafi hjá Góðum samskiptum. Áður starfaði hann sem ráðgjafi hjá Capacent á sviði ráðninga, vinnustaðamenningar og stefnumótunar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Góðum samskiptum.

Tinni er með meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands og B.A.-gráðu í tómstunda- og félagsmálafræði frá sama skóla. Auk þess að hafa starfað hjá Capacent á Íslandi þá hefur Tinni unnið við ráðningar hjá Waterstone Human Capital og starfsráðgjöf hjá DeGroote School of Business - McMaster University í Kanada.

„Við erum ánægð með að hafa fengið Tinna til liðs við okkur frá Capacent sem hætti starfsemi hér á landi í vor, eins og kunnugt er. Sú þekking sem hann kemur með þaðan mun gegna lykilhlutverki við uppbyggingu ráðningardeildar Góðra samskipta. Við ætlum að bjóða sérhæfða ráðningarþjónustu fyrir fyrirtæki og stofnanir með áherslu á gæði og hátt þjónustustig. Við höfum í gegnum árin öðlast verðmæta innsýn í íslenskt atvinnulíf sem mun nýtast til að finna öfluga stjórnendur, ekki síst úr hópi yngra fólks og kvenna,“ er haft eftir Andrési Jónssyni, eiganda Góðra samskipta, í tilkynningunni.

Tinni er í sambúð með Fanneyju Þórisdóttur, fræðslufulltrúa og markþjálfa. Hann á eina dóttur úr fyrra sambandi.