*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 29. september 2019 17:02

Tilboði breytt og hæsta boði ekki tekið

Vaxtaákvæði var bætt við kaupsamning þegar ríkið seldi í Klakka árið 2016. Einn tilboðsgjafa segir það ekki standast neina skoðun.

Ingvar Haraldsson
Lykill er aðaleign Klakka.
Haraldur Guðjónsson

Forsvarsmenn félagsins Frigus II, telja að hæsta boði hafi ekki verið tekið út frá þegar ríkið seldi hlut sinn í Klakka árið 2016 út frá núvirðingu vegna fyrirvara sem voru í öðrum tilboðum. Þá var vaxtaákvæði bætt við kaupsamning sem ekki var í upprunalegu tilboði þegar eignin var seld. Það standist enga skoðun.

Félagið Lindarhvoll seldi hlutinn fyrir hönd ríkisins til félagsins BLM fjárfesting með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins (FME) fyrir því að vogunarsjóðurinn Burlington Loan Management, sem átti BLM, væri hæfur til að fara með virkan eignarhlut í Lykli. Slíkan fyrirvara var ekki að finna í tilboði Frigus II, en félagið er í eigu Ágústs og Lýðs Guðmundssona, jafnan kenndir við Bakkavör.

Sjá einnig: Ríkið orðið af hálfum milljarði

Lindarhvoll auglýsti þann 29. september 2016 að hlutir í Klakka, Glitni HoldCo og Gamla Byr væru boðnir til sölu. Tilboða var óskað fyrir klukkan fjögur föstudaginn 14. október 2016, eða 15 dögum síðar. Þrjú tilboð bárust, tvö frá félögum tengdum Burlington Loan Management og starfsmönnum Klakka og það þriðja frá Frigus II. Þremur dögum eftir að tilboðsfrestur rann út sendi Kvika banki fyrir hönd Frigus II bréf til stjórnar Lindarhvols þar sem bent var á að fyrir lægi að vikur eða mánuði tæki að fá samþykki FME fyrir kaupunum. Ef tekið væri tillit til núvirðingar væri tilboð Frigus II því hærra en tilboð BLM enda segði í tilboði Frigus II að kaupverðið yrði greitt við afhendingu eigna en þó aldrei síðar en 1. desember 2016.

Í samningi Lindarhvols við fjármálaráðuneytið segir: „Mat á því hvað telst hæsta verð í þessu sambandi miðast ávallt við staðgreiðsluverð.“ Útreikningar stjórnar Lindarhvols um hvernig komist var að því að taka ætti tilboði BLM virðast ekki liggja fyrir. Í fundargerð stjórnar Lindarhvols frá 18. október 2016 segir: „Farið var yfir útreikninga alla tilboða með hliðsjón af þeim þáttum sem komu fram í framlögðum tilboðum.“ Frigus óskaði eftir útreikningum stjórnar Lindarhvols í málinu en fékk þau svör að engin gögn væru fyrirliggjandi hjá félaginu umfram þau sem höfðu þegar verið afhent.

Vaxtaákvæði bætt við í kaupsamningi

Í endanlegum kaupsamningi milli BLM fjárfestingar og Lindarhvols var að finna ákvæði um að vextir skyldu bætast við kaupverðið 20 dögum frá undirskrift kaupsamningsins. Forsvarsmenn Frigus II telja að þetta standist engan vegin þá aðferðafræði sem eigi að viðhafa við sölu ríkiseigna og ógilda hefði átt söluferlið. Því til viðbótar hafi ekki verið tekið til greina nýtt boð Frigus II upp á 510 milljónir króna sem gert var hálftíma eftir að tilboðsfrestur rann út sem hafi verið hærra en breyttur kaupsamningur BLM. Því hafi á engan hátt verið gætt jafnræði milli tilboðsaðila. Þannig hafi ekki verið tryggt að hæsta verð fengist fyrir hlutinn.

Þegar Frigus óskaði eftir gögnum um hvernig vaxtaákvæðið kom til í samningi Lindarhvols við BLM var svarið á sömu leið og varðandi útreikninga stjórnar – að engin fyrirliggjandi gögn væru til hjá félaginu. Í svari fjármálaráðuneytisins, fyrir hönd Lindarhvols, við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir að vaxtaákvæðið í kaupsamningnum sé venjubundið og hafi verið gert til þess að tryggja hagsmuni ríkissjóðs enda hafi samningurinn var háður lögbundnum fyrirvara um að Fjármálaeftirlitið samþykkti kaupin.

Gagnrýna aðkomu Steinars Þórs 

 Á stjórnarfundi 18. október fól stjórn Lindarhvols Steinari Þór að taka saman minnisblað um bréf Kviku þar sem farið var yfir athugasemdir við söluferlið sem sneru að miklu leyti að störfum Steinars Þórs. Forsvarsmenn Frigus telja að Steinar Þór hafi verið vanhæfur til að hafa aðkomu að söluferlinu sem stjórnarmaður í Klakka enda hafi tveir af þremur bjóðendum verið tengdir starfsmönnum Klakka. Þá hafi Steinar Þór mælt með því við stjórn Lindarhvols að tilboði BLM yrði tekið án þess að hafa tillögurétt. Því hafi verið afar óheppilegt að fela Steinari Þór að fara yfir málið í stað þess að fá utanaðkomandi aðila til að leggja mat á umkvörtunarefnin.

Sjá einnig: Ríkið greiddi Íslögum 100 milljónir 

Stjórn Lindarhvols telur hins vegar engan vafa leika á um hæfi Steinars Þórs. Stjórnin hafi tilnefnt Steinar Þór í stjórn Klakka sem hafi verið í fullu samræmi við samning og reglur félagsins. „Lögmaðurinn hafði enga hagsmuni né tengsl við tilboðsgjafa og ekkert álitamál er um hæfi hans vegna þeirra verkefna sem stjórn Lindarhvols ehf. fól honum,“ segir í svari fjármálaráðuneytisins.

Veittu ekki fjárhagsupplýsingar í söluferlinu

 Forsvarsmenn Frigus telja að söluferlið hafi verið með þeim hætti að afar erfitt eða ómögulegt hafi verið fyrir þá sem ekki voru tengdir starfsemi Klakka, sem starfsmenn eða kröfuhafar, að hafa nægjanlega yfirsýn yfir félagið og hinn selda hlut til að senda inn tilboð. Ekki var unnin sérstök kynning á Klakka eða birtar fjárhagsupplýsingar um Klakka í söluferlinu.

Þá hafi verið veittur ríflega tveggja vikna frestur til að leggja fram tilboð. Forsvarsmenn Lindarhvols hafa bent á að ekki hafi verið útistandandi fyrirspurnir í málinu við lok tilboðsfrests og því megi álykta sem svo að félagið hafi veitt allar umbeðnar upplýsingar í málinu. Í svari fjármálaráðuneytisins segir að engar takmarkanir hafi verið settar í söluferlinu á því hverjir mættu bjóða í eignina og að allir aðilar að söluferlinu hrfðu aðgang að nákvæmlega sömu upplýsingum frá Lindarhvoli ehf. Framkvæmd við söluna hafi verið að að fullu og öllu í samræmi við þær reglur sem Lindarhvoll ehf. starfaði eftir. „Félagið undirbjó sölu eignanna, leitað var tilboða, tilboð voru metin og tilboð samþykkt. Ráðstöfunin átti sér stað að undangengnu opnu tilboðsferli þar sem gætt var gagnsæis og jafnræðis bjóðenda,“ segir í svari ráðuneytisins.

Lindarhvoll og söluferlið á Klakka 

  • Apríl 2016 Lindarhvoll stofnaður til að selja eignir sem ríkið fékk eftir stöðugleikasamning við slitabú fjármálafyrirtækja
  • September 2016 Lindarhvoll auglýsir til sölu hlut í Klakka, Glitni HoldCo og Gamla Byr.
  • Október 2016 Þrjú tilboð berast í hlutinn frá BLM fjárfestingu, Ásaflöt og Kviku banka í umboði fyrir Frigus II. Gengið er til samninga við BLM fjárfestingu þrátt fyrir andmæli Frigus II.
  • Nóvember 2016 Skrifað undir kaupsamning milli Lindarhvols og BLM þar sem ákvæði um að vextir skuli bætast við kaupverðið er að finna sem ekki var í upprunalegum kaupsamningi.
  • Desember 2016 Frigus kærir Lindarhvol til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og vill fá öll gögn um söluferlið.
  • Febrúar 2017 Hlutur ríkisins í Klakka er afhentur BLM og kaupverðið greitt eftir samþykki Fjármálaeftirlitsins.
  • Febrúar 2018 Lindarhvoli slitið eftir að óseldar eignir voru færðar í LSR.
  • Mars 2018 Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kemst að þeirri niðurstöðu að Lindarhvoli beri að veita Frigus II gögn um söluferlið á Klakka.
  • Júlí 2018 Sigurður Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi, skilar greinargerð um starfsemi Lindarhvols.
  • Október 2019 Von á skýrslu ríkisendurskoðunar um starfsemi Lindarhvols.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér


Stikkorð: Klakki Lindarhvoll Frigus II