Í dag, 17. júní 2011, eru sem kunnugt er 200 ár liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar, einnar mestu hetju sjálfstæðisbaráttunnar. Í tilefni af þessu stórafmæli ákvað Sögufélag Ísfirðinga að tileinka 51. ársrit sitt sem nú kemur út minningu þessa frægasta Vestfirðings Íslandssögunnar eins og það heitir í aðfararorði ritsins.

Þar segir jafnframt: „Á þjóðfundinum varð hann óskoraður leiðtogi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni. Það varð mörgum ljóst þá þegar og löngu síðar, eftir að Jón var fallinn frá, reyndu ýmsir íslenskir stjórnmálamenn, sem sjálfir voru fráleitt jafnokar Jóns, að nota þjóðfundinn og frammistöðu Jóns þar sjálfum sér til framdráttar, þóttust vera pólitískir arftakar og jafnvel hafa einkarétt á skoðunum hans, sem þeir sumir hverjir vissu þó harla lítið um. Jón Sigurðsson var óvenju fjölhæfur maður. Hann var öðru fremur fræðimaður og í stjórnmálabaráttunni sótti hann jafnan rök í sögu þjóðarinnar. Úr þeim smíðaði hann sér þau vopn sem best dugðu honum. “

Ritstjórar Ársrits Sögufélags Ísfirðinga 2011 eru Jón Þ. Þór og Veturliði Óskarsson en á meðal höfunda efnis eru einnig Guðjón Friðriksson, Guðfinna M. Hreiðarsdóttir og Margrét Gunnarsdóttir sagnfræðingar.