*

fimmtudagur, 1. október 2020
Innlent 7. janúar 2020 13:42

Tilkynna um hugsanleg brot í rekstri Wow

Skiptastjórar þrotabús Wow air segja að stjórnendur hafi mögulega framið brot í kringum skuldabréfaútboð og húsnæðismál.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Embætti héraðssaksóknara hefur verið tilkynnt um hugsanleg brot í rekstri flugfélagsins Wow air af hálfu stjórnenda félagsins, en það voru skiptastjórar þrotabús félagsins sem sendu tilkynninguna að því er RÚV greinir frá. Tilkynningarskylda hvílir á skiptastjórum samkvæmt lögum verði þeir þess áskynja að refsivert athæfi hafi mögulega átt sér stað í rekstri félags.

Viðskiptablaðið sagði frá grundvallaratriðum málsins um miðjan ágúst síðastliðinn upp úr skýrslu Deloitte sem unnin var fyrir skiptastjóra að félagið hafi verið ógjaldfært frá miðju ári 2018, áður en skuldabréfaútboðið hófst. Heimildir herma að tilkynningin til héraðssaksóknara varði meðal annars atburði áður en hlutafjárútboð félagsins haustið 2018 fór fram.

Í skýrslu Deloitte kemur fram að bæði Arion banki, sem og tvær flugvélaleigur, hafi fengið greitt upp í skuldir sínar með útboðinu, en í tilviki bankans var milljarða yfirdráttarskuld félagsins við bankann greidd upp gegn því að bankinn skráði sig fyrir 4,3 milljónum evra í útboðinu.

Heimildir herma að tilkynningar skiptastjóranna varði meðal annars greiðslur á húsaleigu Wow air vegna íbúðar í London sem notuð var af Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra félagsins. Ekki liggur fyrir að aðrir starfsmenn hafi haft aðgang að íbúðinni.

Loks er í skýrslunni nefnd kaup Skúla á 10% af skuldabréfaútgáfunni með fjármögnun frá Arion banka án þess að fyrir liggi hvort aðrir þátttakendur í útboðinu hafi vitað af því.

Stikkorð: Skúli Mogensen Wow air