Fjármálaeftirlitið hefur með bréfi dagsettu 21. mars 2005 óskað eftir upplýsingum um samninga sem fyrrverandi stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins gerði við Jóhannes Siggeirsson, framkvæmdastjóra sjóðsins í maí 2000 og um starfslok hans í febrúar 2005.

Stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins ákvað að óska eftir við fyrrverandi framkvæmdastjóra að hann hætti störfum snemma á árinu 2005 vegna óánægju með ávöxtun sjóðsins. Þá fyrst varð henni ljós viðauki við starfskjarasamning framkvæmdastjórans sem fyrrverandi formaður og varaformaður sjóðsins gengu frá við framkvæmdastjórann á sínum tíma. Núverandi sjóðsstjórn komst að þeirri niðurstöðu að samningur um starfslok framkvæmdastjórans á dögunum yrði að taka mið af gildandi ráðningarsamningi hans ásamt viðaukum og studdist þar við álit lögmanna sem til var leitað.

Sjóðsstjórn mun að sjálfsögðu veita Fjármálaeftirlitinu allar tiltækar upplýsingar um samninga og starfslok fyrrverandi framkvæmdastjóra og telur ekki viðeigandi að hún tjái sig frekar um á málið á meðan um það er fjallað í samskiptum Fjármálaeftirlits og Sameinaða lífeyrissjóðsins.