Búið er að tilkynna yfir 2000 tjón vegna jarðskjálftans á Suðurlandi, að sögn Ásgeirs Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra Viðlagatryggingar Íslands. Eru það tjón bæði á innbúi og húsum.

„Ekki er hægt að koma með neinar tölur um heildarkostnað sem stendur. Mikið á enn eftir að koma í ljós og erfitt er að ímynda sér tjónið,“ segir Ásgeir.

Til samanburðar kostuðu Suðurlandsskjálftarnir í maí árið 2000 Viðlagatryggingu Íslands a.m.k. 2,4 milljarða króna.

Tryggingarfélögin taka við tjónatilkynningum og koma þeim áleiðis til Viðlagatryggingar Íslands. Viðlagatrygging bætir tjón af völdum náttúruhamfara á borð við eldgos, jarðskjálfta, skriðuföll, snjóflóð eða vatnsflóð.

Bætur vegna jarðskjálfta eru að miklu leyti greiddar af Viðlagatryggingu Íslands. Viðlagatrygging nær yfir allt sem hefur verið brunatryggt. Tjón af völdum jarðskjálfta á húseignum og enn fremur á lausafé fæst bætt, hafi eigendur tryggt það gegn bruna.

Á vefsíðu Viðlagatryggingar segir: „Viðlagatrygging fylgir brunatryggingu húseigna sem er lögbundin skyldutrygging eins og viðlagatrygging. Sé lausafé tryggt gegn bruna hvort heldur með sérstakri lausafjártryggingu eða samsettri lausafjártryggingu, er innifelur bætur af völdum eldsvoða og flokkast undir eignatryggingar, þá fylgir einnig viðlagatrygging. Vátryggingarfjárhæð viðlagatryggingar er sú sama og viðkomandi brunatryggingar en tryggingarskilmálar eru aðrir.“

Þeir sem ekki hafa brunatryggt innbú sitt kunna því að verða fyrir mestum skaða.