*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 20. nóvember 2011 14:53

Tillögur Tómasar og Elliða felldar

Tillögur Tómasar Inga Olrich og Elliða Vignissonar um aðildarumsókn að ESB voru felldar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Tillaga Tómasar Inga Olrich, fyrrverandi ráðherra, um að umsókn um aðild að Evrópusambandinu (ESB) verði dregin til baka, var felld í skriflegri atkvæðagreiðslu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. Tillagan var áður samþykkt með naumum meirihluta. Þá var farið fram á skriflega atkvæðagreiðslu. Já sögðu 355 og 665 sögðu nei þegar kosið var skriflega. Sex seðlar voru auðir og ógildir.

Breytingartillaga Elliða Vignissonar á utanríkisályktun Sjálfstæðisflokksins var einnig felld. Tillagan ályktaði að hætta skuli aðildarviðræðum við ESB og ekki verði sótt um að nýju án þess að vilji þjóðarinnar liggi fyrir með þjóðaratkvæðagreiðslu. Kosið var um tillöguna og sögðu 617 nei og 430 já.

Frá utanríkismálanefnd fundarins lá fyrir tillaga um að gera skuli hlé á aðildarviðræðum, og þær ekki hafnar að nýju nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.