Af dómi Héraðsdóms Reykjavíkur má lesa að fréttatilkynning sem Kaupþing banki sendi út vegna kaupa kaupa Sheikh Mohamed bin Khalifa Al Thani á 5,01% hlut í bankanum hafi aldrei verið borin undir Sheikh Mohamed. Tilvitnun í hann var borin undir lögmann hans.

Davíð Gunnarsson, þáverandi starfsmaður á samskiptasviði Kaupþings banka, sendi drög að fréttatilkynningu á yfirmann sinn, Jónas Sigurgeirsson þáverandi framkvæmdastjóra samskiptasviðs bankans. Í tilkynningunni voru beinar tilvitnar í Sigurð Einarsson og Sheikh Mohamed þar sem þeir lýstu báðir ánægju með kaupin. Fleiri drög voru send á milli manna og fór meðal annars Magnús Guðmundsson sem einnig var á meðal ákærðu yfir drögin. Að lokum voru lokadrög svo send á þá Magnús, Hreiðar Má Guðmundsson og Ólaf Ólafsson.

Samkvæmt dóminum greindi Ólafur frá því fyrir dómi að hafa borið tilvitnun í Sheikh Mohamed undir Guðmund Oddsson, lögmann Sheikh Mohamed. „Hefur Guðmundur fyrir dóminum staðfest það, en jafnframt borið að hann hafi lýst yfir að hann hafi ekki verið í þeirri aðstöðu að taka ákvarðanir fyrir hönd umbjóðanda síns, Sheikh Mohamed. Má ljóst vera að umrædd fréttatilkynning var aldrei borin undir Sheikh Mohamed sjálfan,“ segir í dóminum.

Í tilvitnuðum orðum Sheikh Mohamed er greint frá því að hann telji kaupin góða fjárfestingu og að hann líti á hlutinn sem langtímafjárfestingu.

„Við höfum fylgst náið með Kaupþingi í nokkurn tíma og teljum þetta góða fjárfestingu. Staða Kaupþings er sterk og við höfum trú á stefnu og stjórnendum bankans, enda hefur Kaupþing náð góðum árangri við þær erfiðu aðstæður sem nú eru á markaðnum og sýnt fram á getu til þess að breytast og laga sig að nýjum veruleika í bankastarfsemi. Við lítum á hlut okkar í Kaupþingi sem langtímafjárfestingu og hlökkum til að eiga góð samskipti við stjórnendur bankans," var haft eftir Sheikh Mohamed í fréttatilkynningunni.