Tim Cook, forstjóri Apple fékk nærri 100 milljónir dala eða um 13 milljarða króna í launagreiðslur í fyrra. Cook, sem hefur gegnt starfi forstjóra í rúman áratug og starfað fyrir félagið í meira en tvo áratugi, fékk nánar tiltekið 98,7 milljónir dala í greiðslur á síðasta ári. Þetta kemur fram í grein Wall Street Journal.

Grunnlaun Cook nema 3 milljónum dala á ári en auk þess fékk Cook 12 milljónir dala í hvatagreiðslur á síðasta ári. Hann fékk jafnframt 82 milljónir dala í formi hlutabréfa í félaginu. Forstjórinn nýtur auk þess ýmissa fríðinda og þarf ekki að hafa áhyggjur af því að standa straum af kostnaði vegna ferða hans með einkaþotum. Cook fékk 14,8 milljónir dala í greiðslur árið 2020 og hafa greiðslurnar því sexfaldast milli ára.

Sjá einnig: Apple fyrst yfir 3 billjóna múrinn

Apple rauf 3 billjóna dala ($3 trillion) múrinn nú á dögunum, fyrst allra skráðra félga í heimi. Bréf félagsins náðu þá tæpum 183 dölum á hlut og fór heildarmarkaðsvirði félagsins yfir 3 þúsund milljarða dala, ígildi tæplega 400 þúsund milljarða íslenskra króna. Tæknirisinn hefur notið góðs af kórónuveirufaraldrinum og seldi tæki og tól fyrir 365 milljarða dollara árið 2021