„Ef ekki verða neinar breytingar er ekki hægt að nálgast það öðruvísi en að breyta hlutverki Ríkisútvarpsins og draga úr þeirri þjónustu sem það veitir. Ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar að RÚV eigi að vera allt fyrir alla öllum stundum,“ segir Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, í samtali við Morgunblaðið.

Þar segir Illugi að menn þurfi að spyrja sig grundvallarspurninga um hlutverk RÚV og framtíð vegna þeirrar stöðu að það hafi ekki getað staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar á réttum tíma. Segir hann að fyrst þurfi að fá skýringar hjá útvarpsstjóra og stjórn fyrirtækisins hvernig þessi staða hefur myndast og ljóst sé að lítið megi út af bregða hvað varði vaxtastig og verðbólgu til þess að RÚV geti ekki sinnt hlutverki sínu með fullnægjandi hætti.

Illugi vill þó ekki tjá sig um hvort RÚV verði lagt til meira fé til að bregðast við skuldastöðunni eða hvort útvarpsgjald verði endurskoðað. Nefnir hann þó að vel megi skoða sölu á einhverjum eignum RÚV á borð við húsnæði eða lóðir.