*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 21. september 2021 18:05

„Tímamótaútgáfa“ hjá Íslandsbanka

Íslandsbanki gaf í dag út sína fjórðu víkjandi skuldabréfaútgáfu sem nemur um 11 milljörðum íslenskra króna.

Ritstjórn
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka

Íslandsbanki gaf í dag út víkjandi skuldabréf að fjárhæð 750 milljónum sænskra króna, eða sem nemur um 11,2 milljörðum íslenskra króna, með innköllunarheimild af hálfu bankans eftir fimm ár. Töluverð umframeftirspurn var eftir útgáfunni sem seld var til fjárfesta í Skandinavíu og á meginlandi Evrópu, að því er kemur fram í tilkynningu bankans til Kauphallarinnar.

Skuldabréfaútgáfan er sú fyrsta hjá Íslandsbanka sem telur til víkjandi eiginfjárþáttar 1 (e. Additional Tier 1). Útgáfan ber 475 punkta álag ofan á þriggja mánaða millibankavexti í sænskum krónum og felur í sér tímabundna niðurfærslu (e. temporary writedown) lækki hlutfall almenns eiginfjár þáttar 1 (e. CET 1) niður fyrir 5,125%.

Íslandsbanki væntir þess að útgáfan fái lánshæfismatseinkunna BB- frá S&P Global Ratings. Stefnt er að því að skrá skuldabréfin í Kauphöllina á Írlandi þann 28. september næstkomandi.

Um er að ræða fjórðu víkjandi skuldabréfaútgáfu Íslandsbanka. Fyrsta útgáfan var í nóvember 2017, þá fyrir 750 milljónir sænskra króna og bankinn gaf svo út víkjandi skuldabréf að fjárhæð 500 milljónum sænskra króna í tvígang, í ágúst 2018 og aftur í júní 2019.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

„Við erum gríðarlega ánægð með þessi jákvæðu viðbrögð við þessari tímamótaútgáfu. Útgáfan markar mikilvægt skref á vegferð bankans til að auka hagkvæmni í samsetningu efnahagsreikningsins en samtímis að viðhalda traustri eiginfjárstöðu. Áhugi erlendra fjárfesta ber vitni um mikið traust til Íslandsbanka og íslensks efnahagsumhverfis. Við höfum unnið hörðum höndum undanfarin ár að byggja upp sambönd við evrópska fjárfesta og þá sérstaklega í Skandinavíu og metum við þau tengsl mikils. Öll víkjandi útgáfa bankans til þessa hefur verið í sænskum krónum og er útgáfa þessa skuldabréfs víkjandi eiginfjárþáttar 1 næsti kafli sögunnar.“

Ráðgjafi Íslandsbanka í ferlinu var UBS Investment Bank. Umsjónaraðilar útboðsins voru Danske Bank A/S, Skandinaviska Enskilda Banken AB (Publ) og UBS Investment Bank.