„Það kæmi að mínu mati aldrei til greina að selja hlut í Landsvirkjun, segir Oddný G. Harðardóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd og fyrrverandi fjármálaráðherra.

Fjallað er um sölu ríkiseigna í Hagsjá Landsbankans í dag og leitaði  VB.is eftir áliti hennar í tilefni af því. Þar kemur fram að ef seldur yrði hlutur ríkisins í Arion og Íslandsbanka og 30% hlutur  í Landsbankanum væri losað um 100 milljarða króna bókfærða eign ríkisins í bönkunum.

Söluandvirðið fyrir hlut ríkisins í bönkunum, sem hægt væri að selja, samsvarar einungis til um 7% langtímaskulda ríkissjóðs sem nema 1.360 milljörðum króna. Því er spurning hvort ríkissjóður geti losað um fleiri eignir til að grynnka á skuldum.

Oddný telur að slík eignasala yrði aldrei veruleg. „Ég fór aldrei yfir það sem fjármálaráðherra hvað annað það væri, einhver lönd kannski. Það er alltaf einhver sala sem telur ósköp lítið upp í heildarskuldina,“ segir Oddný.