Titan Invest er nýstofnað fyrirtæki í eigu Símans og F. Bergsonar Holding. Markmið Titan Invest er að leita uppi fjárfestingartækifæri erlendis á sviði upplýsingatækninnar, þar sem veitt er sambærileg þjónusta og Titan ehf. veitir á Íslandi.

Agnar Már Jónsson, fyrrverandi forstjóri Opinna kerfa, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Titan Invest. Samhliða því mun Agnar Már taka sæti í stjórn Titan ehf.

Að sögn Agnars er ætlunin að skoða kaup á fyrirtækjum sem eru í sambærilegum rekstri og Titan á íslenska markaðinum. Það væru þá fyrirtæki sem sérhæfa sig í Cisco-HP lausnum fyrir stærri fyrirtæki. "Við munum klárlega horfa til Norðurlandanna en einnig til Bretlands og meginlandsins og þá líklega í þessari röð," sagði Agnar. Aðspurður sagði hann að þegar væru þeir með lista yfir fyrirtæki til skoðunar.

Að sögn Agnars eru klárlega kauptækifæri á breska markaðinum. "Þar teljum við okkur einnig hafa ýmislegt til brunns að bera. Við teljum okkur geta aukið þjónustustigið og aðgengi viðskiptavina að þjónustu." Agnar benti á að breski markaðurinn einkenndist af því að þar væri mikið af minni fyrirtækjum sem spennandi væri að skoða með samþættingu í huga.

Gera verður greinarmun á Titan Invest og Titan ehf. en síðarnefnda fyrirtækið er upplýsingatæknifyrirtæki, sem einbeitir sér að lausnum fyrir stærri fyriræki hvort sem um er að ræða net- og símalausnir frá Cisco, miðlægar lausnir frá HP, Open Source- eða Microsoft kerfislausnir. Titan ehf., sem er í eigu Símans, F. Bergsonar Holding og starfsmanna, býður einnig þjónustu, meðal annars í samstarfi við Símann, þeim erlendu fyrirtækjum á Íslandi sem leita til Orange Business Solutions en flest stærstu fyrirtæki heimsins nýta sér þjónustu þess.