Donald Trump staðfesti í dag að hann stefni á að verða næsti forseti Bandaríkjanna, en hann býður sig fram í forvali Repúblíkanaflokksins. Hann greindi frá áformum sínum í hinum fræga Trump turni í New York.

Framboðsræða Trump hefur vakið mikla athygli og þótti mörgum stjórnmálaskýrendum hún vera afar furðuleg og samhengislaus. Hann hikaði ekki við að nota ýmis stóryrði og hér að neðan má sjá tíu af eftirtektarverðustu ummælum hans í dag.

„Í fyrsta lagi, þá er ég mjög almennilegur náungi. Ég gef mikið af peningum, til góðgerðarmála og fleira. Mér finnst ég vera mjög góð manneskja.“


„Ég mun byggja risastóran vegg á sunnanverðum landamærum okkar og ég mun láta Mexíkó borga fyrir þann vegg.“


„Obamacare fer af stað árið 2016. Obama verður úti að spila golf, hann verður jafnvel á einum af golfvöllunum mínum. Ég myndi bjóða honum, ég myndi segja honum að ég eigi bestu golfvelli í heimi. Ég myndi bjóða honum að fá golfvöll við hliðina á Hvíta húsinu, þannig ef hann vildi spila golf, þá væri það fínt. Ég myndi elska það ef hann segði strax af sér og færi að spila golf.“


„Ég verð besti forseti sem Guð hefur nokkurn tíma skapað þegar kemur að störfum.“


„Frjáls viðskipti eru hörmuleg. Frjáls viðskipti geta verið frábær ef þú ert með gáfaða menn við stjórnvölinn. En við höfum bara heimskingja.“


„Þegar Mexíkó sendir fólkið sitt hingað, þá senda þeir ekki sitt besta fólk. Þeir senda fólk sem glímir við mikil vandamál. Þeir senda til okkar eiturlyf og glæpamennina sína og nauðgarana sína. Sumt af þessu fólki er gott, en ég hef rætt við landamæraverði og þeir segja okkur hvað við erum að fá. Þetta verður að taka enda.“


„Hvenær höfðum við betur en Kína í fríverslunarsamningum? Þeir eru að rústa okkur. Ég er alltaf að sigra Kína. Hvenær unnum við Japan í einhverju? Þeir senda bíla hingað í milljónavís, og hvað gerum við? Hvenær sástu síðast Chevrolet í Tókýó? Þeir finnast ekki þar, gott fólk.“


„Bandaríkin eru orðin að ruslahaug fyrir vandamál allra annarra. Það er satt.“

„ISIS byggði hótel. Þegar ég byggi hótel, þá þarf ég að borga vexti. Þeir þurfa ekki að borga vexti því þeir tóku alla olíuna þegar við fórum frá Írak, olíu sem ég sagði að við ættum að taka. Núna á ISIS alla olíuna.“


„Ég á svo margar vefsíður. Ég er með vefsíður út um allt. Ég ræð fólk.. það kostar mig þrjá dollara.“