Á morgun verður byrjað að taka á móti timbri og öðru efni sem notað verður í áramótabrennurnar í Reykjavík.

„Best er að fá hreint timbur á brennurnar og stærstur hluti þess sem fer á brennurnar eru vörubretti en einnig er fenginn afgangur af jólatrjáasölu," segir á vef Reykjavíkurborgar.  „Plast, gúmmí og unnið timbur á ekki erindi í köstinn.  Starfsmenn hverfastöðva Reykjavíkurborgar verða á vettvangi við flestar brennurnar og leiðbeina þeim sem koma með efni.  Hætt verður að taka á móti efni þegar brennurnar eru orðnar hæfilega stórar eða í síðasta lagi kl. 12:00 á gamlársdag."

Fjórar stórar áramótabrennur og sex litlar verða í borginni á gamlárskvöld. Stærð brennanna ræðst af mati Eldvarnareftirlitsins á aðstæðum á hverjum stað og er það óbreytt frá fyrra ári.

Eldur verður borinn að köstunum klukkan 20.30 á öllum stöðunum nema Úlfarsfelli, þar verður eldurinn tendraður klukkan 14.30.

Hér er listi yfir brennurnar í borginni:

  • Við Ægisíðu - stór brenna.
  • Skerjafjörður gegnt Skildinganesi 48 - lítil brenna.
  • Við Suðurhlíðar, neðan við Fossvogskirkjugarð - lítil brenna.
  • Vestan Laugarásvegar móts við Valbjarnarvöll - lítil brenna.
  • Geirsnef - stór brenna.
  • Við Suðurfell - lítil brenna.
  • Fylkisbrennan við Rauðavatn - stór brenna.
  • Gufunes við gömlu öskuhaugana - stór brenna.
  • Kléberg á Kjalarnesi - lítil brenna.
  • Úlfarsfell á athafnasvæði Fisfélagsins ofan við Lambhagaveg - lítil brenna.

Kort af áramótabrennum.
Kort af áramótabrennum.