Viðskiptahraðallinn Startup Reykjavík fer fram í fjórða sinn nú í sumar. Alls bárust hraðlinum um 150 umsóknir en fjárfestar og aðstandendur verkefnisins fóru yfir umsóknir og hafa valið tíu teymi til þátttöku sem kynnt voru í gær á ráðstefnunni Startup Iceland sem fram fór í Hörpu. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Verkefnin sem hafa verið valin til þátttöku eru eftirfarandi:

  • Wasabi Iceland - Ætla að rækta hágæða wasabi á Íslandi með því að nýta hreint vatn og endurnýjanlega orku.
  • Kvasir software - Munu nútímavæða borðspil þar sem síminn þinn er stjórntækið og sjónvarpið borðspilið.
  • Farma - Tengir saman rafræn skilríki og rafræna lyfseðla. Fólk getur keypt lyf á netinu með öruggum hætti og fengið sent heim.
  • Viking Cars - Vettvangur til þess að deila bílnum sínum með öðrum með öruggum hætti - þetta er eins og Airbnb fyrir bíla.
  • Spor í sandinn - Munu byggja sjálfbært vistkerfi í hjarta borgarinnar sem býður upp á nýja upplifun í ferðaþjónustu.
  • Genki instruments – Eru að þróa nýstárleg raftónlistarhljóðfæri sem tengja má saman með áður óséðum hætti.
  • Three42 - Hugbúnaður sem tekur við upplýsingum úr bílnum þínum og tengir beint við snjallsímann.
  • Delphi - Nýta þekkingu fjöldans til þess að spá fyrir um tiltekna viðburði í framtíðinni.
  • PuppIT - Þróa tækni til að taka upp myndefni í rauntíma til þess að nýta fyrir kvikmyndir, leiki, leikhús og sýndarveruleika.
  • Hún / Hann Brugghús - Stefna að því að búa til hágæða bjór úr íslenskum hráefnum.

„Fyrirtækin sem valin hafa verið til þátttöku eru með mikla breidd í starfsemi og teymin eru sterk. Framkvæmd viðskiptahugmynda veltur mest á því fólki sem við hana starfar og við hlökkum til að vinna með þeim í sumar og í framhaldinu. Að Startup Reykjavík hafi verið valinn Viðskiptahraðall ársins á Norðurlöndunum nýlega setur svo jákvæðan þrýsting á okkur að halda áfram að efla frumkvöðlaumhverfið á Íslandi,“ segir Einar Gunnar Guðmundsson, forsvarsmaður Arion banka í nýsköpun.

Teymun­um tíu verður lagt til 2 millj­ón­ir í hluta­fé frá Ari­on banka gegn 6% hlut­deild í fyr­ir­tæk­inu, 10 vikna þjálf­un/​ráðgjöf frá men­tor­um víðs veg­ar að úr at­vinnu­líf­inu, aðstaða að Borgartúni 20 og tæki­færi til að kynna sig og verk­efni sín fyr­ir fjár­fest­um á loka­degi verk­efn­is­ins.

Að baki Startup Reykjavik standa Arion banki og Klak Innovit frumkvöðlasetur. Á síðustu þremur árum hefur Arion banki fjárfest í þrjátíu sprotafyrirtækjum í gegnum Startup Reykjavik auk þess að fjármagna vinnusmiðjur og aðstöðu teymanna. Framkvæmd verkefnisins er í höndum Klak Innovit.