Miklar breytingar hafa átt sér stað hjá Símanum undanfarnar vikur en um leið og gengið hefur verið frá efnahagsreikningi fyrirtækisins hefur það verið að marka sér bás á sviði fjölmiðlunar og fjarskiptareksturs, bæði hér heima og erlendis. Í viðtali við Viðskiptablaðið í dag fer Brynjólfur Bjarnason, forstjóri félagsins, yfir stöðu Símans á þessum tímamótum, hvaða verkefni eru fram undan hjá félaginu og hvaða augum hann sér samkeppni við Dagsbrún.

Þar kemur fram að þegar er hafin athugun á ýmsum fjárfestingakostum á vegum Símans erlendis en fyrir rúmu ári setti félagið upp alþjóðastefnu og fékk erlenda ráðgjafa til liðs við sig. Brynjólfur segir að félagið hafi stuðning nýrra meirihlutaeigenda til að leita arðsamra fjárfestingakosta erlendis. Í útrás sinni hefur félagið ákveðið að fylgja íslenskum útrásarfyrirtækjunum eftir og bjóða þeim áframhaldandi þjónustu erlendis og er fram undan opnun á skrifstofu Símans í London.