*

fimmtudagur, 20. febrúar 2020
Innlent 22. ágúst 2019 16:26

TM hagnast um 1,3 milljarða

Afkomuspá Tryggingamiðstöðvarinnar fyrir skatta er lækkuð um tæplega 100 milljónir í uppgjöri 2. ársfjórðungs.

Ritstjórn
Sigurður Viðarsson er forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar á öðrum ársfjórðungi nam 1.337 milljónum króna, eða sem samsvarar ríflega 1,3 milljarði króna. Er það viðsnúningur frá sama tíma fyrir ári þegar TM tapaði 140 milljónum króna. Þegar horft er á fyrri helming ársins nemur hagnaðurinn nærri 1,8 milljarði króna, en á sama tíma fyrir ári nam hann 149 milljónum króna.

Heildartekjur á fjórðungnum námu 5.483 milljónum króna, sem er 30% aukning frá sama tíma fyrir ári þegar tekjurnar námu 4.216 milljónum króna. Heildarútgjöldin drógust á sama tíma saman um 8,4%, úr 4.413 milljónum í 4.041 milljón króna.

Tekjurnar á fyrri helming ársins jukust um 17,2%, úr 8.748 milljónum í 10.257 milljónir, meðan útgjöldin drógust saman um 3,7%, úr 8.684 í 8.361 milljón króna.

Lækka afkomuspá og hækka kostnaðarhlutfallspá

Nú gerir rekstrarspá félagsins ráð fyrir að hagnaður ársins fyrir tekjuskatt nemi 2.716 milljónum króna, sem er lækkun frá uppgjöri fyrsta ársfjórðungs þegar félagið gerði ráð fyrir 2.803 milljóna króna hagnaði fyrir tekjuskatt. Jafnframt hækkar félagið spá sína fyrir samsetta hlutfallið, sem sýni hlutfall kostnaðar af iðgjöldun, úr 97% í 99,5%. Næstu fjóra fjórðunga gerir spáin ráð fyrir að samsett hlutfall verði 98,1%, framlegð vátrygginga verði 306 m.kr. og ávöxtun fjáreigna verði 6,9%.

Eigið fé TM hækkaði um 7,4% frá upphafi ársins til 30. júní síðastliðinn, úr 13,3 milljörðum í 14,3 milljarða á sama tíma og skuldirnar jukust um 24,5%, úr ríflega 21,3 milljörðum í tæplega 26,6 milljarða. Fóru eignirnar því úr 34,7 milljarða króna í 40,9 milljarða, sem er aukning um 18%, á sama tíma og eiginfjárhlutfallið lækkaði úr 38,4% í 35%.

 

Sigurður Viðarsson forstjóri TM segir afkomuna á öðrum ársfjórðungi einkum skýrast af góðri ávöxtun fjárfestingaeigna.

„Þá var einnig ágætis framlegð af vátryggingastarfseminni þar sem mikil bæting varð frá fyrra ári. Samkvæmt uppfærðri rekstrarspá fyrir árið 2019 gerir félagið nú ráð fyrir að hagnaður ársins fyrir tekjuskatt verði um 2,7 milljarðar króna,“ segir Sigurður.

„TM og Klakki ehf. hófu einkaviðræður um kaup TM á Lykli fjármögnun hf. þann 21. júlí s.l. Gefa aðilar sér 8 vikur frá þeim tíma til að ljúka viðræðum. Það mun því liggja fyrir um miðjan september hver niðurstaðan verður. TM sér mikil tækifæri í þessum kaupum og þeim möguleikum sem þau skapa til útvíkkunar núverandi starfsemi félagsins.“