*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 30. september 2019 17:07

Bréf TM og Sjóvá lækka

Flestar tölur rauðar í Kauphöll Íslands í dag en samtals voru gerð 671 viðskipti fyrir 3,4 milljarða.

Ritstjórn
Samtals voru gerð viðskipti fyrir 3,4 milljarða króna í Kauphöll Íslands í dag.
Haraldur Guðjónsson

Sjávarútvegsfyrirtækið Brim hækkaði mest allra skráðra félaga í Kauphöll Íslands í dag eða um tæp 4% í viðskiptum fyrir rúma 350 milljónir króna. Þá hækkuðu bréf Haga um rúmt prósent í viðskiptum fyrir 192 milljónir króna. Bréf fasteignafélagsins Regins hækkuðu um rúmt hálft prósent í viðskiptum fyrir 33 milljónir króna. Loks hækkuðu bréf í Iceland Seafood um rúmt prósent í viðskiptum fyrir 56 milljónir króna. 

Þar með eru þau félög sem hækkuðu í dag upptalin. Hins vegar lækkuðu bréf 17 félaga í viðskiptum dagsins. Mest lækkuðu bréf Heimavalla eða um 3,3% í mjög litlum viðskiptum fyrir aðeins eina milljón króna. Þá lækkuðu bréf tryggingafélagsins TM um 2,9% í viðskiptum fyrir 242 milljónir króna, en félagið sendi frá sér afkomuviðvörun vegna taps sem rekja má til fasteignasjóða í rekstri Gamma. Samkeppnisaðilinn Sjóvá birti einnig afkomuviðvörun í dag vegna sama máls, en bréf Sjóvá lækkuðu minna eða um 1,6% í viðskiptum fyrir 188 milljónir. 

Samtals voru gerð viðskipti fyrir 3,4 milljarða króna í dag sem er nokkuð meira en dagsmeðaltal síðustu missera. Langmest viðskipti voru með bréf Arion banka eða fyrir 1,2 milljarð króna verð bréfanna stóð í stað. Þá voru einni töluverð viðskipti með bréf í Reitum eða fyrir 303 milljónir króna og lækkuðu bréfin um 0,3%. 

Stikkorð: Kauphöll Íslands