„Tækifærin eru gríðarleg. Við erum nú þegar með rúm 6% iðgjalda okkar erlendis frá. En nú þegar við erum komin með hærri einkunn þá komumst við vonandi inn á lista hjá stærstu tryggingamiðlunarfyrirtækjunum úti,“ segir Sigurður Viðarsson, forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnari (TM). Fram kemur í uppgjöri TM sem birt var í dag að hækkað mat S&P á fjárhagslegum styrk tryggingafélagsins sé mikilvægur áfangi fyrir félagið og framtíðaráætlanir þess. Það gefi m.a. fyrirtækinu tækifæri á að sækja á erlenda markaði sem er ein af megin forsendum þess að félagið geti vaxið til framtíðar.

Nýtt mat opnar dyr á erlenda markaði

Sigurður segir í samtali við vb.is einkunnina BBB- geta opnað dyrnar fyrir TM á stóra markaði. Ekki er markmiðið að opna skrifstofu á erlendum mörkuðum heldur verði horft til þess selja tryggingar á erlendum mörkuðum í gegnum þarlenda miðlara. Þær tryggingar sem TM er með í öðrum löndum eru aðallega skipatryggingar, bæði hjá dótturfélögum íslenskra fyrirtækja erlendis og evrópskum útgerðum og skipafélögum.

„Við þekkjum þetta vel því við höfum áður haft þessa einkunn,“ segir Sigurður og rifjar upp að þegar TM átti norska tryggingafélagið NEMI hafi helmingur iðgjalda komið erlendis frá.

Gerðu ekki ráð fyrir þessu í áætlunum

Sigurður segir stjórn og stjórnendur TM ekki geta sagt til um það nú hversu mikið hlutdeild TM geti stækkað á erlendum mörkuðum í kjölfar nýs mats S&P á fjárhagslegum styrk fyrirtækisins.

„Við gerðum ekki ráð fyrir þessu í áætlunum okkar en erum að meta stöðuna. Við eigum eftir að hitta þessa stærstu miðlara og kanna hvort þeir ætli að taka okkur inn aftur. Eftir það verðum við betur í stakk búin til að stilla væntingarnar af,“ segir hann.