Seðlabankinn tók ákvörðun um að lána Kaupþingi 500 milljóna evra lán í október árið 2008, þremur dögum áður en bankinn fór í þrot. Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, hringdi í Geir H. Haarde forsætisráðherra og tilkynnti honum um ákvörðunina. Málið kom heldur ekki með formlegum hætti á borð ríkisstjórnarinnar, að því er fram kemur í DV í dag.

Í DV er rifjað upp að fjárlaganefnd Alþingis hafi um nokkurt skeið reynt að fá afrit af upptöku samtals þeirra Davíðs og Geirs sem talið er snúast um lánveitinguna. Í bréfi sem Geir hafi skrifað Seðlabankanum í mars hafi hins vegar komið fram að hann vilji ekki að símtalið verði gert opinbert. Geir segir þar að Seðlabankinn hafi tekið ákvörðun um lánveittinguna til Kaupþings og hann ekki komið að henni.

Í bréfinu segir orðrétt:

„Mér sem forsætisráðherra var kynnt þessi ákvörðun bankans, eins og fram kemur í samtalinu, og þótti mér það eðililegt miðað við þær aðstæður sem voru uppi. Ég hafði ekki athugasemdir við þessa ákvörðun og taldi rétt að gera lokatilraun til að bjarga einum viðskiptabankanna frá falli sem að auki gat veitt Seðlabankanum allsherjarveð í verðmætri eign er talin var meira virði en andvirði lánsins.“

Lánið átti að vera til fjögurra daga. Bankinn fór hins vegar á hliðina áður en til greiðslunnar kom og fékk Seðlabankinn veð í FIH Erhvervsbank í Danmörku. Um helmingur lánsins hefur skilað sér til baka síðan þá.