Það sem af er degi nemur velta á skuldabréfamarkaði um 18,4 milljörðum króna og verðbreytingar eru langt frá því að vera jafn umfangsmiklar og í gær, þegar velta á markaðnum nam 65 milljörðum króna og ávöxtunarkrafa á einstaka flokka hækkaði innan dags um nær tvö prósentustig.

Töluverð breyting hefur orðið á ávöxtunarkröfunni á stysta ríkisbréfaflokkinn, sem er á gjalddaga í ár, og hefur hún lækkað um sextíu punkta. Krafan á næst stysta flokkinn, á gjalddaga á næsta ári, hefur hins vegar hækkað um 36 punkta. Krafan á aðra flokka hefur lækkað, en hóflega þó.

Eins og vb.is greindi frá í gær var óðagot á skuldabréfamarkaði nær allan gærdaginn og má rekja það til frumvarps fjármálaráðherra um breytingar á gjaldeyrislögum. Það sem helst olli fjaðrafoki var ákvæði í frumvarpinu sem mælir fyrir um að þriðji töluliður þriðju málsgreinar 13. greinar b. í gjaldeyrislögunum falli á brott. Í henni felst undanþága frá ákveðnum þáttum gjaldeyrishafta og í grunninn heimilar hún erlendum eigendum svokallaðra álandskróna að kaupa veðhæf verðbréf, einkum ríkisskuldabréf og íbúðabréf. Þess í stað á seðlabankinn, samkvæmt frumvarpinu, að setja reglur um undanþágur frá höftum.

Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra, sagði að aðilar á markaði væru að oftúlka áhrif frumvarpsins. Hún sagði að aðeins væri verið að setja álandskrónur undir sama hatt og aflandskrónurnar og staða þessara fjárfesta ætti ekki að breytast við það eitt að samþykkja lögin. Ekki eru þó allir sammála því og hafa bent á að setji seðlabankinn ekki samstundis reglur um undanþágur að lögunum samþykktum þá sé undanþágan horfin án þess að eitthvað hafi komið í staðinn.

Skoða verður einnig stemninguna á skuldabréfamarkaði í gær í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur um að taka eigi harðar á erlendum kröfuhöfum og krónueigendum. Frumvarp, sem enginn virðist hafa tekið eftir þegar það var lagt fram í mars í fyrra, setti því af stað söluæði á skuldabréfamarkaði í gær þegar það var lagt fram aftur. Í því ljósi er líka kaldhæðnislegt að samkvæmt heimildum vb.is var um það rætt innan fjármálaráðuneytisins hvort ástæða væri til að keyra lögin í gegn um síðustu helgi, þ.e. fyrir opnun markaða, en hætt var við það vegna þess að ekki var talið að frumvarpið myndi hafa áhrif á markaði.