Delta Two, fjárfestingasjóður í eigu stjórnvalda í Katar, íhugar leggja fram yfirtökutilboð í Sainsbury, þriðju stærstu verslunarkeðju Bretlandseyja. Tilboðið kemur þremur mánuðum eftir að stærstu eigendur verslunarkeðjunnar höfnuðu 10.1 milljarðs punda tilboði frá hópi einkafjárfestingasjóða. Ekki hefur verið staðfest hversu hátt tilboðið er en fjölmiðlar leiddu að því líkum að það yrði um tólf milljarðar punda ásamt yfirtöku skulda. Í stuttri tilkynningu til kauphallarinnar í London kom ekkert fram um hugsanlegt verð og þess var getið að viðræður Delta Two "kunni eða kunni ekki að leiða til formlegs tilboðs." Delta Two staðfesti jafnframt að viðræður hefðu farið fram um mögulegt tilboð. Gengi bréfa í Sainsbury hækkuðu 1,5% í kjölfar fregnanna og fór í 594,5 pens.

Breska blaðið Financial Times sagði frá því í gær að Paul Taylor, forstjóri Delta Two, hefði fundað með meðlimum Sainsbury fjölskyldunnar, í síðustu viku og viðrað hugmyndir um yfirtökutilboð sem myndi meta fyrirtækið á 610 pens á hlut eða á tólf milljarða punda eins og fyrr segir . Samkvæmt frétt blaðsins var þeim hugmyndum ekki vel tekið af meðlimum fjölskyldunnar. Hinsvegar er ekki útilokað að hugsanlegt yfirtökutilboð geti verið mun hærra. Í frétt Reuters-fréttastofunnar um málið er haft eftir sérfræðingi hjá fjármálafyrirtækinu Numis að tilboðið gæti hugsanlega endað í 700 pensum á hlut. Reuters hefur hinsvegar eftir öðrum miðlara að líklegt sé að Sainsbury-fjölskyldan muni sætta sig við tilboð upp á 625 pens á hlut og Delta Two sé tilbúið að fara svo hátt. Hlutabréf í Sainsbury stóðu 445 pens á hlut í febrúar þegar fregnir tóku að berast um hugsanlega yfirtöku á verslunarkeðjunni. Síðan þá hafa fjölmörg félög verið orðuð við fyrirtækið.

Beitt sér fyrir sölu fasteigna
Hinsvegar fullyrðir blaðið að forráðamenn Delta Two, sem nú fer með fjórðung hlutabréfa, íhugi jafnframt að fá aðra hlutafjáreigendur með sér í lið og beita sér fyrir því að fasteignir Sainsbury verði aðskildar frá rekstri verslunarkeðjunnar og seldar. Áhugi fjárfesta á verslunarkeðjunni stafar ekki síst af hinu mikla undirliggjandi verðmæti sem felst í fasteignum í eigu hennar. Talið er að verðmæti fasteignanna nemi um 8,6 milljörðum punda. Til þess að Delta Two gæti beitt sér fyrir slíku en til þess þyrfti sjóðurinn meðal annars að fá fjárfestinn Robert Tchenguiz, helsta samstarfsaðili Kaupþings á Bretlandseyjum og stjórnarmann í Exista, í lið með sér en hann fer með um tíu prósent í Sainsbury. Hingað til hafa forráðamenn útilokað að selja fasteignir félagsins.