Markmið fjárlagafrumvarpsins 2014 er að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs. Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra þegar hann kynnti fjárlagafrumvarpið í morgun.

Gripið verður til nauðsynlegra aðhaldsráðstafana, skattstofnar verða breikkaðir og skattar lækkaðir, unnið verður að því að auka ráðstöfunartekjur heimila og örva atvinnulífið til aukinna umsvifa.

Veltutengt aðhald ráðuneyta verður 3,6 milljarðar á árinu 2014, eða um 0,8% af veltu fjárlaga 2013. Þarna er til dæmis átt við sparnað í rekstri ýmissa ríkisstofnana. Upphaflega var gert ráð fyrir að veltutengt aðhald yrði 1,5%.

Sértækar aðhaldsaðgerðir verða 2,6 milljarðar, en meðal annars verður fallið frá ýmsum hugmyndum um vegaframkvæmdir. Þá munu 5,8 milljarðar munu sparast vegna þess að fallið verður frá nýlegum eða óhöfnum verkefnum.  Meðal annars verða slegin af ýmis verkefni sem tengjast fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar. Bjarni Benediktsson benti á sú fjárfestingaáætlun hefði ekki verið bundin í lög.

Gert er ráð fyrir að samanlagt muni aðhaldsaðgerðirnar skila 12 milljarða króna lækkun útgjalda á árinu 2014 frá því sem var gert ráð fyrir í fjárlögum yfirstandandi árs.