Tollar á allar helstu útflutningsvörur frá Íslandi til Rússlands munu lækka verulega eftir að Rússland fær aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni WTO. Kveðið er á um þessar tollalækkanir í tvíhliða samningi milli Íslands og Rússlands sem var undirritaður nýlega í Moskvu í tengslum við framtíðaraðild Rússlands að stofnuninni. Þetta kemur fram í Stiklum, vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Samningurinn kveður á um tollalækkanir á öllum mikilvægustu útflutningsvörum Íslendinga til Rússlands. Þannig lækka tollar á allar helstu sjávarafurðir sem Íslendingar flytja út til Rússlands. Sem dæmi má nefna að tollur á uppsjávarfisk, eins og síld og loðnu, sem nú er um 10%, fer niður í 3%.

Aðlögunartíminn er almennt tvö ár en tollur á innfluttri, heilfrystri loðnu til Rússlands fer niður í 3% aðeins einu ári eftir að Rússland fær aðild að WTO. Samanlagt nema síld og loðna 58% af heildarútflutningi Íslands til Rússlands samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Það er því ljóst að um milljóna króna verðmæti er að ræða segir í Stiklum.

Þá var og samið um lækkun tolla á innfluttum fiskikerjum til Rússlands, eins og þeim sem Sæplast hefur framleitt og mikill áhugi hefur verið fyrir í Rússlandi. Almennt verða tollar á þessar vörur lækkaðir úr 20% í 6,5% að loknu 3-4 ára aðlögunartímabili. Rússar féllust á að taka upp nýtt tollnúmer
fyrir einangruð fiskiker, sem eru framleidd á Íslandi í miklu magni, og er aðlögunartíminn fyrir þetta tollanúmer aðeins eitt ár. Samningurinn tekur gildi þegar Rússland fær aðild að WTO, en vonir standa til að aðildarviðræðum Rússa verði lokið næsta sumar, þótt ljóst sé að mikið starf sé framundan til þess að því markmiði verði náð.