Innan ferðaþjónustunnar hafa menn ekki verið á eitt sáttir um ágæti júnímánaðar, sumir hafa verið vel sáttir en aðrir ekki og margir kvartað undan miklum afbókunum hópa. Ljóst er þó að mikil umferð einstaklinga á bílaleigubílum hefur fyllt víða upp í þótt misjafnt kunni að vera milli svæða. Engar tölur liggja enn fyrir frá Ferðamálaráði um fjölda ferðamanna hvorki í maí né júní vegna tölvubilunar en nú liggja fyrir niðurstöður tekjukönnunar SAF og Deloitte sem sýna að meðalherbergjanýting í júní hefur hækkað á heilsárshótelum um land allt um 4-6 prósentustig.

Meðalnýting í Reykjavík var í ár 83,51% en var 77,92% í fyrra og hækkaði meðalverð um 7,1%. Heilsárshótel á landsbyggðinni voru í júní í ár með meðalnýtinguna 61,07% en 56,76% í fyrra. Meðalverðið lækkaði á móti um 8,4%.