Liðið Orthus Games fór með sigur af hólmi með leikinn „Relocator“ í nýafstaðinni leikjahönnunarkeppninni Game Creator. Það eru Samtök leikjaframleiðenda á Íslandi (IGI) sem standa að keppninni.

Sérstök verðlaun hlaut liðið Forever Alone fyrir listræna hönnun fyrir leikinn Deadguy.

Í tilkynningu kemur fram að keppnin hafi byrjað í september. Þá gafst þátttakendum í keppninni kostur á að mæta í vinnustofur til að fá aðstoð og álit á vinnu sinni. Í vinnustofunum var fjallað um leikjahönnun, forritun, frumgerðarsmíði og annað því tengt. Vinnustofurnar voru í höndum starfsfólk frá fyrirtækjum á borð við CCP og Gogogic.

Sex verkefnum var skilað til dómnefndar.

Úrslitin voru kunngerð síðastliðinn fimmtudag við hátíðlega athöfn í Háskólanum í Reykjavík.

Í liði Orthus Games sem sjá má á myndinnu eru þeir Tyrfingur Sigurðsson (til vinstri), Burkni Óskarsson (fyrir miðju) og Ingþór Hjálmarsson (til hægri). Sigurliðið hlaut fjögurra mánaða dvöl hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, tölvu frá Samsung-setrinum og 100 þúsund króna peningastyrk frá Landsbankanum.