Tónlistarhúsið við Reykjavíkurhöfn verður fimm til sjö milljörðum króna dýrara en rætt var um í haust. Þá var talað um að það ætti að kosta 18 milljarða króna og að það vantaði um 10 milljarða króna til að ljúka byggingunni. Samkvæmt upplýsingum frá fulltrúum ríkis og borgar sem að málinu koma er kostnaðurinn nú talinn verða 22,8 milljarðar auk tveggja milljarða sem runnið hafa til tveggja fyrirtækja sem að byggingunni standa.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er búið er að setja 9,8 milljarða króna í framkvæmdir við byggingu Tónlistarhússins. þar fyrir utan var búið að setja einn milljarð í Eignarhaldsfélagið Portus hf. og sömu leiðis einn milljarð króna í Nýsir hf. sem á Portus til helminga á móti Landsbankans fasteignafélags ehf. Samtals eru þetta því um 11,8 milljarðar króna.

Þá hefur verið upplýst af Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra og Júlíusi Vífli Ingvarssyni, formanni stjórnar Faxaflóahafna sf. og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, að það kosti 13 milljarða króna að ljúka byggingu hússins.

Í heild er því verið að tala um 24,8 milljarða króna í stað 18, en tveir milljarðar af þessari upphæð eru þó sagðir hafa farið í verkefni sem tengjast Tónlistarhúsinu, en ekki beint í bygginguna sjálfa.