Fasteignasalan Draumahús var tekin til gjaldþrotaskipta þann 25. júní síðastliðinn en lýstar kröfur í búið nema um 122,6 milljónum króna.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins hætti fasteignasalan að mestu starfsemi síðastliðið haust en það var Lífeyrissjóður Verslunarmanna sem fór fram á gjaldþrotaskipti s.l. vor.

Að sögn Bjarka Baxter, skiptastjóra þrotabúsins átti Draumahús fasteign við Strandgötu í Hafnafirði. Sú fasteign er að sögn Bjarka veðsett Landsbankanum auk þess sem lögveðskröfum var lýst í þrotabúið. Að öðru leyti fundust óverulegar eignir í búinu.

Alls var 47 kröfum lýst í þrotabúið en sem fyrr segir námu kröfurnar tæpum 123 milljónum króna. Þar af nema launakröfur um 13,8 milljónum króna en þá er Landsbankinn með tæplega 27 milljóna króna veðkröfu í fyrrnefnt húsnæði.

Skiptafundur verður haldinn þann 22. september næstkomandi.