Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion banka, segir tæplega 50 þeirra 80 fyrrum starfsmanna Kaupþings sem þurfa að greiða upp lán sín vegna hlutabréfakaupa í bankanum, starfi hjá Arion í dag.

Starfsmönnum var meinað að selja bréfin

Hann segir það skipta miklu máli að málefni starfsmannanna sé loksins komið í ferli. „Það hefur verið nagandi óvissa um hvað muni gerast á meðal umræddra starfsmanna. Um hvað verði um þessar skuldir og þessar persónulegu ábyrgðir. Nú getur starfsfólkið allavega farið að tala við einhvern. Ugglaust munu einhverjir úr hópi starfsfólk láta reyna á þetta fyrir dómstólum. Bæði vegna þess að þeim hafi verið meinað að selja bréfin og vegna þess að þetta kaupréttarkerfi var sett upp á hræðilega ósanngjarnan hátt. Í rannsóknarskýrslunni er beinleiðis sagt að kerfið hafi verið partur af því að láta aðila halda á stórum hluta bréfa í bankanum. Ég held að það sé alveg klárt mál að annaðhvort einstakir starfsmenn, eða þeir saman sem hópur, muni láta reyna á þetta fyrir dómstólum.“

Verður snúið hjá einhverjum þeirra sem tóku lánin

Finnur segir það stundum gleymast að á meðal starfsmannanna 80 séu ósköp venjulegt fólk sem tók lágar fjárhæðir að láni. „Þetta eru ekki einungis risafjárhæðir eins og stjórnendurnir voru með. Það eru þarna innan um einhverjir sem munu ráða við þetta, gera upp sitt og halda áfram með lífið. Hjá öðrum verður þetta snúnara. Sumir verða ugglaust að nýta sér einhverjar af þeim leiðum sem bankinn hefur verið að bjóða öllum sínum viðskiptavinum. Aðrir munu sjálfsagt þurfa að fara í hina opinberu greiðsluaðlögun eða sértæka skuldaaðlögun hjá bankanum. En það verður bara tekið á því þegar það kemur upp.“