Um 64% Breta treysta höfundum greina á alfræðisíðunni Wikipedia „nokkuð mikið“ eða „mjög mikið“ til að segja sannleikann samkvæmt nýrri könnun frá YouGov sem unnin var í tengslum við Wikipedia ráðstefnu í London. Er þetta hlutfall trausts nokkuð hærra en það sem þátttakendur könnunarinnar sýndu til blaðamanna en um 61% svarenda treystu fréttamönnum BBC og sýndi minna hlutfall svarenda traust til blaðamanna frá öðrum miðlum.

Síður Wikipedia eru unnar af sjálfboðaliðum sem senda inn efni og leiðrétta efni frá öðrum án nokkurra hindrana. Það þýðir að hver sem er getur skrifað Wikipedia grein og vekja því niðurstöður könnunarinnar óneitanlega athygli. Í henni kemur einnig fram að Bretar sýna alfræðiorðabókinni Encyclopædia Britannica töluvert meira traust en Wikipedia. Könnunin náði til 1.943 Breta og var unnin í síðustu viku.