Stjórnvöld ættu að rannsaka þátt alþjóðlegra matsfyrirtækja í þeirri lausafjárkrísu sem nú ríkir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, með það að augnamiði að semja nýtt regluverk í kringum starfsemi þeirra. Þetta kemur fram í bréfi sem Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu, skrifaði til Werner Langen, sem á sæti á Evrópuþinginu, og Dow Jones-fréttaveitan komst yfir.

Trichet bætist þar með í hóp stjórnmálamanna, meðal annars Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseta, og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sem hafa lýst yfir vilja til að setja nýjar reglur um starfsemi matsfyrirtækja, en þau hafa legið undir ámæli um að hafa gefið áhættusömum skuldabréfavafningum of háar lánshæfiseinkunnir.

Trichet var hins vegar ekki opin fyrir hugmyndum sem sumir evrópskir stjórnmálamenn hafa viðrað um nýjar reglur um starfsemi vogunarsjóða. Seðlabankastjórinn sagði að slíkir sjóðir nytu stuðnings á alþjóðlegum vettvangi.