Forval beggja flokka vestanhafs héldu áfram í nótt. Repúblikanaflokkurinn kaus í tveimur ríkjum, Arizona og Utah, en Demókratar kusu í þremur, Arizona, Utah og Idaho.

Trump eykur forskotið

Donald Trump er ennþá með örugga forystu eftir niðurstöðu kosninganna. Hann vann sigur í Arizona og fékk fyrir það 58 fulltrúa. Ted Cruz vann hins vegar gríðarlega öruggan sigur í Utah þar sem hann fékk 69% atkvæða, en John Kasich fékk 17% atkvæða. Donald Trump fékk einungis 14,1% atkvæða í ríkinu og þetta er versta tap hans í forvalinu hingað til. Utah veitir hins vegar einungis 40 fulltrúa og Trump eykur því við forskot sitt.

Trump er nú með 739 fulltrúa en Ted Cruz er með 465 fulltrúa. Alls þarf 1.237 fulltrúa til að tryggja sér útnefningu flokksins.

Jafnt hjá Demókrötum

Bernie Sanders vann örugga sigra í tveimur ríkjum í nótt, Idaho og Utah. Hann var með tæplega 80% fylgi í báðum ríkjum. Hillary Clinton vann sigur í Arizona, en hún fékk um 58% atkvæða gegn 40% atkvæða sem fóru til Sanders.

Sigur í þessum tveimur ríkjum veitir Sanders 57 fulltrúa en Clinton fær 51 fulltrúa fyrir sigur sinn í Arizona. Clinton er með samtals 1.681 fulltrúa en Sanders er með 927 fulltrúa. Inn í þessum tölum eru ókjörnir viðbótarfulltrúar sem ekki er kosið um í forvali flokkana. Clinton hefur fengið mikinn meirihluta þeirra, eða 467 gegn 26 sem hafa farið til Sanders.